22.02.2006 18:29

Reikistjörnurnar í febrúar

Reikistjörnurnar í febrúar

Af reikistjörnunum skína Satúrnus og Júpíter einna skærast. Merkúríus gægist upp yfir sjóndeildarhringinn síðla febrúar og Mars heldur áfram að dofna og minnka á himninum.

Merkúríus byrjar að sjást frá Íslandi í febrúar og verður milli 8-9° yfir sjónbaug í vest-suðvestri við myrkur frá 21. febrúar, séð frá Reykjavík. Birta hans nær mest um -0,5 þann 24. febrúar og fer síðan minnkandi. Um þetta leyti ætti að vera auðvelt að finna hann á himninum, þar sem hann er bjartari en nokkurt annað fyrirbæri á þessu svæði.

Tunglið rétt hjá mars 5. febrúar
STÆRRI MYND

Mars er í suðaustri á kvöldin í febrúar frá Reykjavík séð og í suðri við myrkur. Mars er appelsínugulleitur blettur í Hrútnum í upphafi mánaðarins en færist smám saman yfir í Nautið og verður örskammt frá Sjöstirninu milli 13. og 23. febrúar. Um klukkan 22:00 sunnudaginn 5. febrúar er tunglið aðeins tvær gráður frá Mars á himninum og ættu sem flestir að virða fyrir sér þetta fallega samspil á himninum.

Um miðjan mánuðinn fer birtustig Mars niður í +0,5 og heldur hann áfram að dofna er jörðin fjarlægist hann. Lítið er á Mars að sjá enda komin niður í átta bogasekúndur að sýndarstærð. Hann líkist mjög Aldebaran, björtustu stjörnunni í Nautinu, á þessum tíma.

Satúrnus er á lofti alla nóttina í febrúar og gefst stjörnuáhugamönnum því gott tækifæri til þess að skoða hann vel og vandlega. Hann var í gagnstöðu við sól þann 27. janúar síðastliðinn og voru hringarnir þá sérstaklega bjartir og glæsilegir séðir í gegnum stjörnusjónauka.

Satúrnus er hátt á suðurhimni skömmu fyrir miðnætti í febrúar. Hann er í krabbamerki, örstutt frá stjörnuþyrpingunni M44. Í sjónauka með vítt sjónsvið njóta bæði reikistjarnan og þyrpingin sín mjög vel og er stórglæsileg á að líta.

Á Satúrnusi er margt að sjá. Í bæði litlum og stórum stjörnukíkjum ættu allir að sjá hringana greinilega, mögulega Cassini-geilina í hringunum, skýjabelti í lofthjúpnum og fáein tungl á sveimi umhverfis reikistjörnuna, til dæmis Títan, Teþýs, Enkeladus, Díónu og Reu.

Júpíter er morgunstjarna í febrúar, lágt í suðri þegar birta tekur. Hann kemur upp seint á næturnar (í kringum 04:00) en er engu að síður bjartur og áberandi í vogarmerkinu. Birtustig hans er í kringum -1,9 og er hann því bjartasta stjarnan sem sést frá Íslandi ef svo má segja.

Erfitt er að skoða Júpíter þegar hann er svona lágt á lofti. Í mars og apríl skánar þetta talsvert og því um að gera að nýta þær fáu stundir sem gefast þá til þess að skoða Júpíter. Hann mun ekki sjást almennilega aftur fyrr en eftir fáein ár frá Íslandi!

Tunglið í febrúar

Tunglið í nóvember
STÆRRI MYND

Í þessum mánuði er tunglið hálft vaxandi þann 5. febrúar klukkan 06:29 og fullt mánudaginn 13. febrúar klukkan 04:44. Degi síðar er tunglið fjærst jörðu, þá í nær 406.000 km fjarlægð. Þann 21. febrúar, klukkan 07:17, er tunglið hálft minnkandi og loks er nýtt tungl 28. febrúar klukkan 00:31. Daginn áður, eða 27. febrúar, er tunglið næst jörðu og þá í aðeins 357.000 km fjarlægð.

Það getur verið ótrúlega skemmtilegt að skoða tunglið í gegnum stjörnusjónauka, sérstaklega ef þú hefur aldrei skoðað það áður. Besti tíminn til þess að skoða tunglið er þegar það er vaxandi eða minnkandi. Á þeim tíma er auðveldara að koma auga á fjöll og skugga í gígum á yfirborðinu því birtan er ekki eins mikil. Gott er að nota handsjónauka til þess að læra að þekkja stærstu kennileitin á yfirborðinu, svo sem stærstu gígana eða höfin.

Það getur verið sniðugt að nota tunglsíu með sjónauka til þess að draga úr birtu tunglsins og skerpa á smáatriðum á yfirborðinu. Við hvetjum alla til þess að skoða tunglið með stjörnusjónaukum enda er það ákaflega skemmtilegt.



Heimildir:

Almanak Háskóla Íslands 2006. Þorsteinn Sæmundsson sá um útgáfun
Flettingar í dag: 52
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 165
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 75959
Samtals gestir: 15729
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 10:54:46
Site Meter